Nýjárssundið

December 29, 2010 by · Leave a Comment
Filed under: Fréttir 

Kæru félagar,

Eins og kemur fram í fyrri frétt verður opið á Ylströndinni á nýjárssdag frá klukkan 11 – 14. SJÓR ætlar að bjóða öllum gestum þann dag upp á kaffi, kakó, te og piparkökur.

Hlökkum til að sjá sem flesta eiga góða stund á nýju ári í dásamlegum sjónum og heita pottinum.

Bendum einnig á hvað þetta verður flott dagsetning til að ganga í félagið 1.1.11 ;)

Bestu kveðjur
Stjórn SJÓR

Share

Jólakveðja

December 23, 2010 by · Leave a Comment
Filed under: Fréttir 

Stjórn félagsins óskar öllum félagsmönnum og velunnurum gleðilegra jóla.
Benedikt Hjartarson

Share

Kveðja frá SJÓR-félaga í Osló

November 22, 2010 by · 3 Comments
Filed under: Fréttir 

Okkur barst frábært bréf frá Eygló Halldórsdóttur í Osló, félaga í SJÓR, þar sem hún lýsir sjósundsafrekum í Noregi:

Ég er nú búin að vera hér í Noregi í rúma 3 mánuði og hef að sjálfsögðu ekki slegið slöku við í sjósundinu. Hér á eftir fer skrá yfir og smá úttekt á þeim stöðum sem ég hef prófað og Norðmenn kalla strendur eða “stranda” en hafa ekki uppá mikið að bjóða miðað við þá frábæru aðstöðu sem við höfum í Nauthólsvíkinni. Í mesta lagi að finna megi rusladall og útisturtu og kannske kamar. – Hér er því verk að vinna, kæru félagar, þið sem hyggið á “nýja útrás” eða boðun hins blauta fagnaðarerindis.

1. staðurinn sem ég prófaði var Hornstrandir hinar norsku sem eru á Nesoddatanga í Oslófirði.
http://www.zinetravel.no/image/1378
Þar er kletta- og sandströnd með gnægð appelsínugulra brennimarglytta sem skiptu sér jafnt um sjóinn eins og þær væru með ákveðið vaktsvæði hver og ein. Einhvern veginn tókst mér samt að semja við þær frið og synda líklega 1/2 km án þess að lenda í útistöðum við kvikindin.

Þegar ég kom í land beið nokkur hópur baðgesta sem veigruðu sér við að fara ofaní og spurðu mig í forundran hvort ég væri ekki hrædd við marglytturnar. Þá fyrst gerði ég mér grein f. alvarleika málsins, en ákvað að leika íslenska víkingakonu og sagði bara að þetta væri ekkert mál, því ef maður léti marglytturnar í friði gerðu þær manni heldur ekki neitt. Að þessu sögðu var ég svo hreykin af því hvernig ég tæklaði aðstæður að það lá við að ég tryði þessu sjálf!!!!!!!

2. staðurinn sem ég prófaði líka í ágúst var Katten við austurhluta Osló þar sem heitir Nordstrand.
http://www.oslofjorden.com/badesteder/oslo/katten.html
Það var ágætur staður með klettóttri strönd, grasflöt og sandhluta. Kamrar, útisturta og ruslafötur. Mætti einni appelsínugulri á sundleiðinni.

3. staðurinn var Ulvøya, en þangað fór ég í október. Kletta- og sandströnd beynt á móti Katten.
http://www.oslofjorden.com/badesteder/oslo/sydstranda.html
Ágætur staður með 2ja hæða stökkbretti, en ekki neinni búningsaðstöðu og veiðimenn með stangir við hlið sundfólksins. Þarna hittast nokkur hress norsk og dönsk pör (10-12 manns) kl. 9.30 á laugardagsmorgnum og vaða útí og uppúr aftur. Ég hef mætt 2x og slegið í gegn sem hetja f. að synda i 10 mínútur í 10 °C.

4.-5. staðurinn var svo i Moss eða brennivínsbænum eins og hann var eitt sinn kallaður (alveg satt! http://www.e-pages.dk/vis-itnorway/79/84)
Prófaði 2 strendur þar:
Larkollen
http://www.youtube.com/watch?v=YPbYbDS4bro
Ágæt sandströnd og tjaldstæði uppaf ströndinni.
Sjøbadet Moss http://www.visitmoss.no/product.php?id=375168
Ágæt sandströnd nýuppgerð í miðbæjarbryggjuhverfi Moss. hreirnn og fínn sjór, en heldur margir áhorfendur f. minn smekk og engin búningsaðstaða. Leið eins og fatafellu meðan ég skipti um föt eftir baðið.

6. staðurinn sem ég prófaði og langaðgengilegasti frá miðbæ Osló er Hulk ströndin á Bygdøy. Strætó nr. 30 ekur frá Nasjonalteatret og þangað ca. 4x á klst. virka daga en 2x um helgar.
http://www.friluftsetaten.oslo.kommune.no/badeinfo/huk/
Ætla að prófa 2 aðra staði þarna á Bygdøy Paradisbukten og Sjøbadet.

7. staðurinn var St. Olavs pir, Sjøbadet í Þrándheimi.
http://www.sjobadet.no/
Þar var ég laugardaginn 30. okt. sl. Eftir mikla leit og eftirgrennslan fann ég loks þetta frábæra sjóbað. Flott aðstaða en því miður búið að loka því sumarvertíðinni lauk 1. sept. Ég skellti mér nú samt ofaní og notaði útiaðstöðuna, borð og bekki og stiga út í sjó.

Verð að viðurkenna að þarna braut ég sjósundsreglu nr. 1 að synda ekki ein. Hugðist synda um 100 m leið að bryggjutanga einum. Engar baujur eða viðvaranir sjáanlegar. Sneri við áður en ég var komin alla leið og var rétt komin uppúr þegar stór bátur kom á fullri ferð og krossaði leiðina sem ég var nýbúin að synda. Þarna munaði nú litlu að ég synti mitt síðasta sjósund. En lítill vernarengill hefur líklega verið með í för.

8. Í dag fór ég svo í frábærum félagsskap 6 kvenna á besta aldri sem hafa stundað sjóböð í um 10 ár í strönd í litlum bæ, Son, við austanverðan Oslófjörð.
http://www.visitfollo.no/?c=5&parent=100000109&TLcc=100000123&id=199077&lang=no
Við byrjuðum á röskum göngutúr í ca. hálftíma og skelltum okkur svo útí. En Adam var ekki lengi í Paradís og Eva ekki heldur, því þær voru ekki fyrr farnar útí en þær ruku uppúr aftur. Ég hélt fyrst að þær hefðu séð hákarl, eða amk marglyttu. En nei, þetta var bara venjulega sjóbaðið þeirra. Þær tóku andköf af aðdáun yfir því að ég skildi synda í um 10 mín. í 5°C “heitum” sjónum og grandskoðuðu neofreon sokkana mína og hanskana og töldu að þeir hlytu að vera svarið við úthaldinu. Ætla allar að fá sér svoleiðis fyrir næstu ferð.

Svo var kveikt bál í fjörunni og drukkið kaffi og borðað súkkulaði og kökur. Semsagt bætt á sig þeim kaloríum sem töpuðust. Mikið hlegið og talað alveg eins og heima. Svo var gengið til baka sömu leið og ég kynnt fyrir bæjarbúum sem hetjan úr norðri. Þær sögðust hafa notið hylli í áraraðir fyrir hreysti í bænum, en nú væri ég semsagt búin að eyðileggja það allt saman. Samt vilja þær endilega hafa mig með næst – skil ekki alveg hvers vegna.

Með blautum sjósundkveðjum,
frá Eygló í Osló

Share

Fyrirlestur um Ermarsund

November 15, 2010 by · Leave a Comment
Filed under: Fréttir 

Eins og flestir vita þá hefur Benni, formaðurinn okkar, synt yfir Ermarsundið og Árni, gjaldkerinn okkar, stefnir á sama afrek næsta sumar.

Næstkomandi miðvikudag, munu þeir halda sameiginlegan fyrirlestur um þetta sund. Það verður fróðlegt og skemmtilegt að heyra frá fyrstu hendi hvernig upplifun er að standa í undirbúningi fyrir svona aflraun og hins vegar hvernig er svo að vera á staðnum, kominn í aflraunina og ljúka henni.

Að auki munu Vadím Forofonov og Ingþór Bjarnason verða á staðnum og svara spuningum um þjálfunarmál og fleira. Vadím, sem er þjálfari Árna fyrir Ermarsundið, var kosinn þjálfari ársins af SSÍ nú nýliðna helgi, er ellefu faldur Rússlandsmeistari, heimsmeistari í garpasundi og ólympíufari. Ingþór er pólfari og íþróttasálfræðingur.

Tími: Miðvikudagurinn 17. nóvember, kl. 19:15 til 20:30
Staður:
HR við Nauthólsvík, fyrirlestrarsalurinn Antares, V1.01.
Fyrirlesarar: Benedikt Hjartarson og Árni Þór Árnason
Sitja fyrir svörum: Vadím Forofonov og Ingþór Bjarnason

Frítt er á fræðslukvöldið og léttar veitingar verða í boði SJÓR.

Share

Skriðsundnámskeið á vegum SJÓR.

October 2, 2010 by · Leave a Comment
Filed under: Fréttir 

Um þessar mundir eru 40 einstaklingar að læra skriðsund á vegum Sjósunds- og Sjóbaðsfélags Reykjavíkur. Tveir frábærir sundmenn og kennarar hafa verið fengnir til að kenna. Arnar Felix Einarsson kennir tveimur 10 manna hópum í Kópavogslaug. Magnús Ólafsson kennir öðrum tveimur hópum í Breiðholtslaug. Ótrúlegar framfarir hafa orðið hjá öllum hópunum eftir bara einn tíma.

Garpasund sjósundfólks

Nú er verið að vinna í því að setja saman garpahóp sjósundfólks, sem syndir þá saman tvisvar til þrisvar í viku eftir æfingaplani. Dregist hefur að koma honum saman vegna skriðsundnámskeiðsins. Öll skipulagsvinnan er unnin meðfram öðrum störfum og því seinlegri. 

Benedikt Hjartarson

Share

Er Fossvogurinn Klóakpottur?

October 2, 2010 by · 1 Comment
Filed under: Fréttir 

Sjósundmenn hafa í liðinni viku vart hitt þann kunningja sem ekki hefur spurt í gamni hvort viðkomandi syndi í klóaki. Fjölmiðlar greindu frá því að Kópavogsbær væri að veita frárennsli fram hjá skolpdælustöðinni beint út í sjóinn vegna tveggja daga viðgerðar á stöðinni.  Stöð þessi er ekki í sundleið sjósundfólks í Nauthólsvíkinni en straumar geta hæglega borið saurinn inn voginn ef mikið af frárennslinu fer þar út. Eftirgrennslan hjá þeim sem rannsakað hafa voginn og skoðað mengunarmælingar sem þar hafa farið fram, bendir til þess að magn sjávar sem um voginn fer sé það mikið að hann hreinsi sig alveg á sex tímum. Það er því engin hætta á því að við syndum í klóaki. Sjórinn er hreinn og heilsusamlegur. Hitt er svo annað mál að mikil uppbygging hefur farið fram í ferðaþjónustu í Nauthólsvík og staðurinn því viðkvæmur fyrir svona fréttum. Það að veita saur í sjóinn er með öllu ólíðandi. Kópavogsbær, sem stendur sig því miður mjög illa í ferðaþjónustu, verður að taka sig taki og koma skólpmálum sínum í lag. Í Kópavogi býr fjöldi iðkenda sjávaríþrótta og ekki er óalgengt að þeir komist í beina snertingu við sjóinn. Sjórinn þarf að vera hreinn, alltaf, alls staðar.

Árni Þór Árnason, varaformaður SJÓR, hefur rætt við umsjónarmenn skólpmála i Kópavogi. Það verður að segjast eins og er að samskiptin mega vera jákvæðari.  Eitt fékkst þó jákvætt út úr þeim samtölum. Það er áhugi á að bæta aðstöðuna við sjóinn til að Kópavogsbúar hafi svipaða aðstöðu til sjóbaða og Reykvíkingar. Það fyrsta sem þarf að gera er að koma skólpmálum í viðunandi horf.

Benedikt Hjartarson

Share

Skriðsundsnámskeið og æfingar.

September 14, 2010 by · 1 Comment
Filed under: Fréttir 

Viðræður hafa farið fram við tvo frábæra þjálfara um að taka að sér störf fyrir SJÓR:

- Magnús Ólafsson.
Miðað er við að hann taki að sér skriðsundskennslu fyrir byrjendur og lengra komna. Eftir námskeiðið er nemandinn fullfær um að synda skriðsund sér til ánægju í sjó og sundlaug og til að ganga í Garpahóp.

- Rússneskur heimsklassa þjálfari
Hann mun sjá um Garpahóp SJÓR. Um er að ræða æfingar tvisvar í viku, klukkustund í senn, þar sem synt er eftir fyrirfram ákveðnu plani. Að vetri loknum verður sundmaður fær um að þreyta það sund sem honum hugnast, t.d. Viðeyjarsund, Drangeyjarsund, Skerjafjarðarsund o. fl. Einnig að taka þátt í Garpamóti.

Enn er ekki fullljóst hver kostnaðurinn verður en honum verður stillt í hóf eins og hægt er. Vonast er til að æfingar fari fram í Laugardalnum.
Ef þú hefur áhuga sendu þá tölvubréf á bennih@simnet.is og tilgreindu hvaða tími hentar þér best.
FH. SJÓR Benedikt Hjartarson

Share

Dýfingamót 8. september kl. 17:20

September 6, 2010 by · 2 Comments
Filed under: Fréttir 

Fyrsta opna keppnismótið í „sjódýfingum” verður haldið næstkomandi miðvikudag 8. september, í Nauthólsvík .

Stokkið verður fram af klettinum og lent í haffletinum sem mun verða nálægt stórstraumsflóði.

Keppt er í opnum flokki og öll kyn, öll þjóðerni, allur aldur og öll getustig eru gjaldgeng til keppni.

Tímasetning:

Keppni hefst kl. 17:20 og áætlað að ljúki fyrir 18:20

(sérstakur æfingadagur verður mánudaginn 6. september, kl. 17:00 – 19:00)

Keppnisfyrirkomulag :

Hver keppandi má gera 1 – 3 stökk. Aðeins besta stökk telst til verðlauna. Erfiðleiki stökksins, útfærsla í flugi og niðurkoma verða metin í samræmi við Dýfingareglur FINA.

Skráning á staðnum.

Dómarar:

Fulltrúi Flugmála: Magnús Pálsson (mun dæma flugfasa stökksins)

Fulltrúi Hafrannsókna: …. (mun dæma niðurkomu í hafið)

Fulltrúi Sundsambands: Jónas Tryggvason (mun dæma erfiðleika og stíl)

Skipulag og eftirlit:

SJÓR, Sjósunds og sjóbaðsfélag Reykjavíkur

Dýfinganefnd SSÍ

Share

Sund út í Viðey 20. ágúst kl 17:30

August 17, 2010 by · 3 Comments
Filed under: Fréttir 

Núna föstudaginn 20. ágúst er næsta hópsund sumarsins sem haldið er af SJÓR. Þá verður synt út í Viðey (900 m) og til baka (1,8km) fyrir þá sem það kjósa. Aðrir verða ferjaðir til baka til Sundahafnar.
Sjá mynd
Nokkrir bátar verða með í för til öryggis og fylgja sundfólki alla leið og ættu því allir að geta tekið þátt, en við viljum samt hvetja fólk til að sýna aðgát.

Nauðsynlegt er að mæta tímanlega og skrá sig.

Munið að hafa með ykkur nesti, t.d. heitt kakó (allavega eitthvað heitt að drekka) og banana eða aðra góða næringu til að nærast eftir sundið.

Þegar sundinu lýkur er einnig gott að fara í heitan pott og hita sig upp. Laugardalslaugin er ekki langt frá Sundahöfn og er opin til kl. 22 30

Share

Fyrst kvenna til að synda Viðeyjarsund í rúm 50 ár

July 28, 2010 by · 1 Comment
Filed under: Fréttir 

Í morgun kl 12:30 var Þórdís Hrönn Pálsdóttir fyrst kvenna síðan 1959 til að synda formlegt Viðeyjarsund.   Þórdís synti þetta sögufræga sund samkvæmt nýrri reglugerð SSÍ  um Víðavatnssund og fær hún því sundið skráð og viðurkennt hjá opinberum aðila.

Þórdís og félagar leggja á stað úr fjörunni fyrir neðan Viðeyjarstofu

Fyrir Þórdísi höfðu tvær konur synt Viðeyjarsund.  Helga Haraldsdóttir 1959 og Ásta Jóhannesdóttir 1928 en hún var fyrsta konan til að synda sundið. Viðeyjarsundið sem er frá Viðey, fjöru fyrir neðan Viðeyjarbryggju og inn í Rvk höfn , að gamla slippnum, á sér mikla hefð og langa sögu.  Fyrsta Viðeyjarsundið var synt af Benedikt G. Waage árið 1914.  Síðan þá hafa 35 manns synt sundið.

Þórdís á sundi í spegilsléttum sjónum

Aðstæður voru eins og best verður á kosið,  blankalogn, 2 m/s, hálfskýjað, Sjávarhiti 13,1°, lofthiti 16° og spegilsléttur sjór.

Þórdís kemur mark

Þórdís synti á nýju kvennameti, 1 klst 22 mín 11 sek, en tveir aðrir garpar syntu með Þórdísi, hin efnilegi sjósundmaður Árni Þór Árnason og Ermarsundkappinn Benedikt Hjartarsson.  Árni synti á 1 klst 26 mín og 58 sek og Benedikt á 1 klst 30 mín og 23 sek.

Fjöldi blaðamanna og vina tók á móti Þórdísi og félögum hennar.

Þórdís fékk höfðinglegar móttökur á vinkonum sínum á Grand Hótel.

Anna Sigurðardóttir, Þórdís og Allsmund

Sundgarparnir voru öll hress eftir sundið enda aðstæður góðar og garparnir með mikla reynslu af sjósundum sem þessum.

Benni, Þórdís og Árni

Sundið fékk talsverða fjölmiðlaumfjöllun, bæði í sjónvarpsfréttum RÚV og Stöð 2 og í vefmiðlum, mbl.is

Share

« Previous PageNext Page »