Árni Þór synti Drangeyjarsundið.

September 9, 2010 by · 3 Comments
Filed under: Árni Þór 

Á sunnudaginn var,  skelltu félagarnir sér norður á Sauðárkrók, Árni og Benni en fyrirhugað var að Árni myndi þreyta Drangeyjarsundið fræga, en Benni myndi vera honum til aðstoðar í bát Björgunarsveitarinnar Grettis frá Hofsósi ásamt þremur björgunarsveitarmönnum.  Benni synti þetta sund fyrir tveimur árum eða 2008, en komst ekki núna sökum eitrunar sem hann fékk í augun eftir Viðeyjarsund eins og flestir muna eftir.

Lofthiti var ákjósanlegur við Drangey, en nokkuð hafði bæst í vind yfir daginn og var ölduhæð yfir 1m og sjóhiti um 10.5 gráður.  Árni lagðist til sunds, rétt um 17:30 og sóttist sundið vel þrátt fyrir ölduhæðina.  Gríðarmikið var um marglyttur á leiðinni, en það finnst sundfólki jafnan frekar óþægilegt, enda hægt að brennast illa af þeirra völdum.

Árni kláraði sundið á 02.42.51 og gekk í Grettislaug að sundinu loknu mjög vel á sig kominn og hress, en þó með mikla sjóriðu.  Þess má geta að Árni er fyrsti maðurinn til að synda þetta sund svo seint á árinu eða í september.

Því miður var enginn á staðnum sem kunni á myndavél, svo við verðum að nota ímyndunaraflið góða og sjá Árna fyrir okkur í mikilli ölduhæð sönglandi “Hafið bláa hafið hugann dregur” á leið til lands.

Share

Varnaðarorð fyrir sjósundsfólk –

September 3, 2010 by · Leave a Comment
Filed under: Árni Þór, Fréttir 

Öryggismál

Fegurð – Gætni – Félagsskapur

Reykjavík 1. september 2010

Kæru félagsmenn SJÓR,

Sjósunds- og sjóbaðsfélag Reykjavíkur hefur stækkað gríðarlega hratt frá stofnun þess í janúar síðastliðinn og hefur athyglin, sem sjósund á Íslandi nú fær, farið fram úr öllum væntingum. Fjöldi félagsmanna er kominn yfir 250 manns og ekki ólíklegt að talan tvöfaldist innan skamms tíma.

Ein af aðalástæðum fyrir stofnun félagsins var að efla öryggi og koma á framfæri öryggismálum til þeirra sem væru að stunda sjósund eða sjóböð í Nauthólsvík og annarsstaðar. Við trúum því að þetta frábæra jaðarsport eigi bara eftir að stækka í fjölda iðkenda á komandi árum og því klárlega þörf á félagi til að halda utan um hlutina og hafa talsmann, sem er SJÓR.

SJÓR hefur nú þegar haldið námskeið í fyrstu hjálp við góðar undirtektir og eins var haldið námskeið í endurlífgun, sem einnig var vel sótt af félagsmönnum.

Þeir sem þetta sport stunda þurfa þó á stöðugri áminningu um öryggi að halda og það er auðvelt að gleyma sér í „hita“ leiksins og synda of langt út og hyggja ekki að öryggi sínu.

Sjósund er frábær skemmtun og ögrandi áhugamál, en sé óvarlega farið, getur þessi skemmtun breyst í sára reynslu okkar allra, ef alvarlegt slys myndi eiga sér stað eða hreinlega drukknun.

Við þurfum því öll að taka höndum saman og fylgjast hvert með öðru. Núna þegar haustar kólnar sjórinn hratt og mjög óráðlegt að synda langt frá landi, sér í lagi ef fólk er eitt á ferð. Við í stjórn SJÓR erum alfarið á móti því að fólk syndi eitt, því við vitum af reynslu að það er margt sem getur farið úrskeiðis. Það þarf ekki annað en fólk komi illa sofið, illa nært , hafi nýlega verið lasið til að úthald líkamans sé skert! Eins er mjög óráðlegt að elta annan sundmann nema þekkja hann mjög vel, þar sem líkamleg geta getur verið mjög ólík í þessum aðstæðum. Skiptir þá engu máli hve vel manneskjan virðist í góðu formi!

SJÓR, ÍTR og Reykjavíkurborg, ásamt fleirum hafa fundað um öryggismál, en uppi eru ýmis sjónarmið í því hversu langt reglur eigi að ganga. Sjósund er jaðarsport og reglur eru ekki efst í huga okkar sjósundsfólks, en við verðum að hugsa lengra og spá í það hvernig nærumhverfi okkar, velunnarar, fjölmiðlar og aðrir myndu taka á okkur ef um alvarlegan atburð væri að ræða!

Verum ábyrg, svo við getum notið sjósunds sem lengst, áhyggjulaus og glöð í sjónum okkar.

Fh SJÓR

Árni Þór Árnason, varaformaður

Share