Líkamsbygging sjósundsfólks

January 26, 2010 by · Leave a Comment
Filed under: Uncategorized 

Á liðnum árum hef ég velt því fyrir mér hvaða líkamsbygging henti sjósundi best. Hef reyndar oft verið spurður að því. Ég hef fylgst með umræðu á netinu en ég veit ekki til að neinar rannsóknir hafi verið gerðar. Það virðist þó vera nokkuð samdóma álit þeirra sem hafa tjáð sig um það og vit þykjast hafa á, að kassalaga fólk eigi auðveldast með að samlagast kuldanum í sjónum, þ. e stutt og þrekið. Alison Streeter, fræknasti sjósundmaður heims (kona), hefur þannig líkamsbyggingu.

Á myndinni má sjá Alison Streeter gefa undirrituðum góð ráð áður en hann lagði í Ermarsundið.

Flestir telja að hæfilegt fitulag sé til bóta en að háir og mjóir sundmenn kólni hraðar og þá í gegnum langa hand- og fótleggi.
Þeir fljótustu til að synda Ermarsundið hafa verið grannir og háir. Þeir hafa þá náð upp miklum hraða og brennslu í líkamanum og þeirra fljótastur er Petar Stoychev.

(Petar Stoychev er á myndinni hér til vinstri)

Það kemur vel heim og saman við okkar hraðsyntasta sjósundmann, Heimir Örn. Hann og Petar eru nákvæmlega jafn háir og jafn þungir. Við getum horft spennt til framtíðar hvað Heimi varðar. Hann á eftir að gera það gott í sjósundinu.

(Heimir Örn er á myndinni hér til vinstri)

Hvað með eigin reynslu? Undanfarið hef ég lést töluvert. Það hefur haft þau áhrif í þessum kalda sjó, kringum 0 gráðurnar, sem hefur verið undanfarið, að mér finnst ég þola hann betur en hef þó einungis prófað styttri sund. Hvort það er æðakerfið sem ræður betur við kuldann eða eitthvað annað er ekki gott að segja.

Það er því augljóst að það er ekki auðvelt að segja til um það hvað hentar og hvað ekki, þetta er allt í kollinum á hverjum og einum.

Sjósund er: Fegurðin, félagskapurinn og gætnin.

Benedikt Hjartarson, formaður SJÓR

Share

Spjallborðið komið upp komið í notkun.

January 22, 2010 by · Leave a Comment
Filed under: Uncategorized 

Nú er komið upp spjallborð fyrir áhugasama og fékk það nafnið “Heiti potturinn”. Hugmyndin með því er að geta deilt skoðunum og rætt um sjósund hvar sem við erum á landinu, og ekki sýst að deila með okkur hinum skemmtilegum sögum úr sjósundi og stöðum til að synda á.

Til að komast þangað þarf að ýta á hnappinn merktan “Heiti potturinn” hér uppi og lesa leiðbeiningarnar. Skrá notandanafn og leyniorð, skrá sig inn og taka þátt. Ekki flókið það.

Muna svo að síðan og heiti potturinn verða eins lifandi og skemmtileg eins og við gerum það sjálf. Svo við hvetjum alla til að taka þátt.

Stjórnin

Share

Sjónvarpsviðtal við Benna og Árna á sjónvarpsstöðinni INNTV 14.01

January 18, 2010 by · Leave a Comment
Filed under: Fréttir 

Benni og Árni Þór mættu í viðtal á sjónvarpsstöðinni INN-TV 14.01 og og ræddu þeir um sjósund og félagið okkar út frá mörgum hliðum.  Einkar skemmtilegt viðtal við þá kappa.  Hér er linkur á viðtalið, njótið vel

Share

Skriðsundsnámskeið fyrir félaga SJÓR

January 16, 2010 by · 1 Comment
Filed under: Uncategorized 

Skriðsundsnámskeið fyrir félaga SJÓR

Share

Blessunarathöfn í sjónum við Nauthólsvík á vegum rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar

January 16, 2010 by · 1 Comment
Filed under: Uncategorized 

Þriðjudaginn 19. janúar kl. 19:00 mun rússneska rétttrúnaðarreglan vera með blessunarathöfn í sjónum við Nauthólsvík.
Nú eru jólin hjá rétttrúnaðarkirkjunni allri því þeirra jól hefjast á þrettándanum. Sjóblessunin er hluti af þeirra jólaritúali (jólahelgihaldi) og verður að gerast þennan tilgekna dag. Svo skemmtilega vill til að blessunin fellur núna innan tímamarka alþjóðlegrar samkirkjulegrar bænaviku sem sjá má nánar á www.kirkjan.is/baenavika/2010 .
Vegna þessarar samkirkjulegu bænaviku má reikna með að aðilar frá öðrum trúfélögum taki þátt í blessuninni.

Þetta fer þannig fram að fyrst les prestur rétttrúnaðarreglunnar á Íslandi, hann Timur, bænir á ströndinni og síðan fer hann ásamt söfnuði sínum út í sjóinn og blessar hann.

Share

Benni og Árni í sjónvarpinu í kvöld!

January 14, 2010 by · Leave a Comment
Filed under: Fréttir 

Benni og Árni verða í viðtali á sjónvarpsstöðinni INN í kvöld kl: 21:00 og verður rætt við þá um sjósund og allt sem því viðkemur.  Munum setja þráð á viðtalið hér vonandi strax á morgun.

Stjórnin

Share

Sjósundfólk Íslands og SJÓR hafa sameinað krafta sína

January 12, 2010 by · Leave a Comment
Filed under: Uncategorized 

Ákveðið hefur verið að sameina krafta þeirra sem standa á bak síðuna www.sjosund.blogspot.com  og nýju heimasíðu SJÓR (Sjósunds og sjóbaðsfélag Reykjavíkur), sjosund.is. Sjosund.blogspot.com verður áfram til, enda orðin vitnisburður nærri því fjögurra ára sögu sjósunds á Íslandi og áhugavert að fletta í gegnum fyrri færslur.  Einnig má geta þess að sjosund.blogspot.com er nátengd síðunni www.ermarsund.com. Þar er að finna stórmerkilega sögu ermarsundsfara eins og  Benedikts Hjartarsonar, sem var fyrstur íslendinga til að sigra Ermarsundið og fleiri kappa.

Share

Staðan á stofnfélagaskráningu.

January 10, 2010 by · Leave a Comment
Filed under: Uncategorized 

Jæja, nú er síðasti dagur stofnfélagaskráningar að líða, en hægt er að gerast stofnfélagi fram að miðnætti í kvöld, sunnudaginn 10. janúar.
Verið er að vinna í stofnfélagaskírteinum sem stofnfélagar fá afhend á næstunni.
Stofnfélagar eru orðnir 153 og erum við mjög þakklát fyrir hve vel fólk hefur tekið undir og ljóst að þörf er á svona félagi.

Það er að sjálfsögðu hægt að gerast félagi áfram þó við lokum fyrir stofnfélagaskráningu.

Við hvetjum fólk einnig til að senda okkur efni sem gæti átt heima hér á síðunni okkar.

Sjáumst í sjónum.
Fegurð
Félagskapur
Gætni

Share

Enn hægt að gerast stofnfélagi

January 6, 2010 by · 1 Comment
Filed under: Uncategorized 

Viljum benda áhugafólki um sjósund og sjóböð að þau sem skrá sig í félagið til og með 10. janúar verða skráðir stofnfélagar. Nú þegar hafa um 150 manns skráð sig, svo ljóst er að félagið hefur alla burði til að verða öflugt og láta gott af sér leiða í aðstöðumálum og fleiru.

Hægt er að skrá sig með því að velja “Skráning í félagið” hér að ofan og fylgja leiðbeiningum þar.

Share

Nýárshugvekja formanns

January 2, 2010 by · Leave a Comment
Filed under: Benni 

Nýárshugvekja formanns
Nú í upphafi nýs árs er ekki úr vegi að velta fyrir sér því sem koma skal og þess sem liðið er.
Má fyrst geta að Sjósunds- og sjóbaðsfélag Reykjavíkur (SJÓR) var stofnað á nýársdag. Með því er komin von um bætta aðstöðu og meira líf en þegar er, þó nokkuð sé. Ljóst er að fjöldi stofnfélaga fór fram úr björtustu vonum. Talningu er ekki enn lokið enda enn hægt að gerast stofnfélagi á netinu á sjósund.is. Á fundinum var kosin framvarðasveit sem starfa mun fram að aðalfundi. Hana skipa Benni, Árni Þór, Biggi tindur, Jóhanna Fríða og Guðný klerkur. Stefán og Sif voru kosin í varastjórn. Við val á stjórnarmönnum var tekið tillit til kyns og að allir flokkar iðkenda ættu sinn talsmann.
Seinasta ár var gott ár fyrir sjósunds og sjóbaðsiðkendur. Fyrir það fyrsta var veður hagstætt hér sunnanlands. Sjávarhiti meiri en elstu menn muna. Fjöldi iðkenda margfaldaðist, þó ekki sé með nokkru móti hægt að segja til um hversu mikið, vegna þess að ekki eru haldnar skrár yfir sumarmánuðina. Mikið var um að vera í sjósundskemmtunum um allt land. Nítján manna hópur fór frá Reykjavík í júní mánuði til Stykkishólms og átti þar unaðslegan dag saman við sund á fallegum haffleti. Fáir staðir henta betur til sjósunds en Hólmurinn. Ekki skrítið að svona margir sjósundsmenn koma þaðan. Aldrei hafa fleiri synt Drangeyjarsund en á sumri liðnu. Fimm manna sveit sundmanna synti frá Árskógströnd og út í Hrísey. Önnur fimm manna sveit kláraði Fimmeyjasundið; sund milli allra eyjanna norðanvert við Reykjavík. Tveir einstaklingar syntu frá landi og út í Grímsey á Vestfjörðum. Viðeyjarsund var þreytt og hópsund frá Skarfakletti og út í Viðey og til baka. Einnig synti hópur Skarfaskerssund. Mikil þátttaka var í sundi yfir Pollinn á Akureyri á landsmóti UMFÍ. Fossvogssundið var fjölmennt og einnig Íslandsmótið í sjósundi sem fram fór í Nauthólsvík. Þetta er aðeins lítið brot af því sem sundmenn höfðu fyrir stafni á liðnu ári. Rúsínan í pylsuendanum er sprengingin sem orðið hefur í vetrarbaðsiðkuninni sem engan endi ætlar að taka. Þetta er örugglega enn eitt heimsmetið.
Með tilkomu Sjósunds-og sjóbaðsfélags Reykjavíkur er von á miklu lífi í sundskemmtanir og uppákomur tengdu strandlífi. ÍTR hefur óskað eftir fundi með þessu nýja félagi til að kanna hvað hægt er að gera, því búið er að sprengja þá aðstöðu sem Reykjavík hefur upp á að bjóða.
Ég hef heyrt drauma sjósundsfólks sem eru allt frá því að geta synt að fyrstu, annarri bauju eða yfir Fossvoginn og upp í miklu draumkenndari sund. Hver hefur sín markmið og sína drauma. Mig langar að hjálpa þessu fólki til að láta drauma sína rætast.
Í dag, annan dag janúar, gerði ég munnlegt samkomulag um að taka að mér hópa útlendinga og aðstoða þá við sjósund, en við höfum orðið vör við áhuga erlendis frá.
Af upptalningunni að ofan má ljóst vera að það er bara bjart framundan í sjósundinu og sjóböðunum.
Fegurð, félagsskapur, gætni.
Gleðilegt sjóár.
Benedikt Hjartarson

Share