Dagskrá sumarsins 2014

April 27, 2014 by · Leave a Comment
Filed under: Fréttir 

Það verður nóg um að vera í sjónum í sumar fyrir félagsmenn SJÓR. Fossvogssundið verður á sínum stað og synt verður út í Viðey föstudaginn fyrir menninganótt. Við ætlum að bjóða aftur upp á Skerjafjarðarsund og 4,5 km Bessastaðasund fyrir þá sem vilja reyna sig við langar vegalengdir. Svo verða nokkrir góðir sundstaðir heimsóttir til að mynda Kleifarvatn, Hausastaðir, Straumur og Skötubótin í Þorlákshöfn. Við ráðgerum einnig að endurtaka góðar ferðir þegar veðrið er hagstætt, s.s. öldusund upp á Akranesi, sólsetursund og sjósund við Garðskagavita.
Í haust stefnum við á dagsferð upp á Reykhóla þar sem við ætlum að synda í sjónum og fara í skoðunarferð um Þörungarverksmiðjuna. Nánar um það þegar endanleg dagsetning er komin og eins munum við koma með upplýsingar um hvern viðburð þegar nær dregur.
Með bestu kveðjum og von um gott sjósundsumar
Stjórn SJÓR

Hér kemur dagskráin.

FRÆÐSLUKVÖLD miðvikudagurinn 21.mai – kl 19
Héðinn Valdimarsson haffræðingur ætlar að fræða okkur um sjávarstrauma, flóð,fjöru og liggjanda,hættur í hafinu og hvað bera að hafa í huga þegar synt er við strendur landsins. Hvernig liggja straumar. Hvað er sniðugt og hvað ekki. Fræðslan er opin öllu sjósundsfólki.

SKÖTUBÓT VIÐ ÞORLÁKSHÖFN laugardagurinn 31.maí
Hittast kl 11 við Olísstöðina Norðlingaholti og verðum samferða austur. Förum í halarófu þrengslin til Þorlákshafnar. Við ætlum að leggja bílunum við golfvöllinn sem er rétt áður en komið er inn í bæinn. Skötubótin er skemmtilegur staður til útivistar, þarna er mikil sandfjara og hægt að leika sér í öldum ef sá gállinn er á sjónum. Eftir sjósundið verður auðvitað farið í sundlaug Þorlákshafnar og lagst í alla potta og rennibrautir.

STRAUMUR fimmtudagurinn 12. júní
Það er æðislegt að synda við Straum í Hafnafirði. Hittumst við Straum kl 17:30 og svo keyrum við áfram veginn alveg niður að sjó. Þarna rennur Kaldáin til sjávar og því er sjórinn lagskiptur. Ferskvatn frá ánni liggur ofaná sjónum og sést lagskiptingin vel þegar kafað er. Eftir sjósundir verður svo farið í sund í Ásvallalaug

FOSSVOGSSUND FYRRA fimmtudagurinn 26.júní
Mæting kl 17 sundið hefst kl 17:30
Fossvogssundið er tilvalið fyrir þá sem hafa prófað að synda í sjónum og langar að synda yfir til Kópavogs og jafnvel til baka. Bátafylgd verður og eins munu vanir sjósundsmenn synda með hópnum, leiðbeina og aðstoða sundmenn. Leiðin yfir er um 550 metrar og má reikna með að sjórinn verði um 13 gráður ef sumarið svíkur okkur ekki. Þeir sem synda aðra leiðina verða teknir upp í bát Kópavogsmegin og þeim skutlað til baka. Ef sundmenn treysta sér ekki til að synda lengra er alltaf hægt að rétta upp hendina og þá verður þeim skutlað í land. Sundið er öllum opið og fer skráning fram í Nauthólsvík frá kl 17 og kostar ekkert að taka þátt. Skylda er að synda með skærlitaða sundhettu. Við viljum benda sundfólki á að það er á eigin ábyrgð í sjónum. Við viljum benda sundfólki á að það er á eigin ábyrgð í sjónum.

BESSASTAÐASUND laugardagurinn 5.júlí
Tvær vegalengdir eru í boði 4,5 km og 2,4 km. Þeir sem synda lengri leiðina byrja sundið við Lambhúsatjörn, sunnan við Bessastaði, en þeir sem synda styttri vegalengdina hefja sundið við Ranann á Bessastaðanesinu og synda síðan inn í Nauthólsvík. Á þessari leið geta sundmenn lent í straumum bæði við Bessastaðalónið og eins við Kársnesið. Bátar og kajakar munu fylgja sundmönnum eftir í sundinu og áskilur SJÓR sér rétt til að stöðva sund þeirra sem þeir treysta ekki til að synda eða ná ekki að synda gegnum straumana. Sundmönnum verður skutlað á upphafstað sundsins frá Nauthólsvík og eru þeir því beðnir að vera mættir tímanlega. Þeir sem ætla lengri vegalengdina verði mættir kl 11:00 og þeir sem ætla styttri vegalengdina mæti kl 11:30. Gott að hafa meðferðis teppi eða hlýja yfirhöfn til að vera í á leiðinni. Mikilvægt er að sundmenn séu vel nærðir og hvíldir fyrir sundið. Þetta er erfitt sund og því gerum við þær kröfur á þá sem ætla að taka þátt að þeir hafi synt Fossvogssundið eða geti sýnt fram á að hafa reynslu af sjósundum. Skylda er að synda með skærlita sundhettu.Veittir verða viðurkenningapeningar fyrir sundið. Þátttaka kostar 2000 krónur fyrir þá sem ekki eru í Sjósunds- og sjóbaðsfélagi Reykjavíkur. Við viljum benda sundfólki á að það er á eigin ábyrgð í sjónum.

SKERJAFJARÐARSUND laugardagurinn 19.júlí
Þetta er um 2.2 km löng vegalengd í beinni línu. Þetta er hið svokallaða Skerjafjarðarsund sem Eyjólfur Jónsson sundkappi synti oft. Þetta sund er fyrir vana sundmenn og sjósundsfólk og er mikilvægt eins og fyrir öll önnur sjósund að koma vel nærður og sofinn til leiks. Einnig er gerð krafa um að þeir sem synda séu með skæra sundhettu á höfðinu. Það er mikið öruggisatriði til að sundmenn sjáist vel á sundinu og til að verja höfuðið fyrir hitatapi. Sundmenn verða ferjaðir frá Nauthólsvík og að upphafsstað. Gott að hafa meðferðis teppi eða hlýja yfirhöfn til að vera í á leiðinni. Veittir verða viðurkenningapeningar fyrir sundið. Þátttaka kostar 2000 krónur fyrir þá sem ekki eru í Sjósunds- og sjóbaðsfélagi Reykjavíkur. Við verðum með nokkra báta og nokkra kayaka sem að fylgja fólki alla leið. SJÓR áskilur sér rétt til að stöðva sund þeirra sem taldir eru hætt komnir. Nauðsynlegt að vera mættur kl 10:30 niður í Nauthólsvík. Þetta er erfitt sund og því gerum við þær kröfur á þá sem ætla að taka þátt að þeir hafi synt Fossvogssundið eða geti sýnt fram á að hafa reynslu af sjósundum. Við viljum benda sundfólki á að það er á eigin ábyrgð í sjónum.

FOSSVOGSSUND SEINNA fimmtudagurinn 7.ágúst
Mæting kl 17 sundið hefst kl 17:30. Fossvogssundið er tilvalið fyrir þá sem hafa prófað að synda í sjónum og langar að synda yfir til Kópavogs og ef til vill til baka. Bátafylgd verður og eins munu vanir sjósundsmenn synda með hópnum og leiðbeina og aðstoða sundmenn. Leiðin yfir er um 550 metrar og má reikna með að sjórinn verði um 13 gráður ef sumarið svíkur okkur ekki. Þeir sem synda aðra leiðina verða teknir upp í bát Kópavogsmegin og þeim skutlað til baka. Ef sundmenn treysta sér ekki til að synda lengra er alltaf hægt að rétta upp hendina og þá verður þeim skutlað í land. Sundið er öllum opið og fer skráning fram í Nauthólsvík frá kl 17 og kostar ekkert að taka þátt. Skylda er að synda með skærlitaða sundhettu. Við viljum benda sundfólki á að það er á eigin ábyrgð í sjónum.

SYNT ÚT Í VIÐEY föstudagurinn 22.ágúst
Lagt verður af stað kl. 17:30 frá Skarfakletti en mæting kl 17. Það kostar ekkert fyrir félagsmenn SJÓR en 2000 kr fyrir aðra. Hægt verður að velja um aðra leið eða báðar. Við verðum með nokkra báta og kayaka sem fylgja fólki alla leið. Einnig verður mjög vant sjósundsfólk með blöðkur sem fylgist vel með og er tilbúið að hjálpa. Bendum fólki á að hafa meðferðis eitthvað heitt að drekka og hlý föt sem auðvelt er að klæða sig í eftir sundið. Ekki er verra að hafa einhvern sem tekur á móti manni þegar sundið er búið. Allir sem taka þátt fá frítt í Laugardalslaugina eftir sundið og hvetjum við ykkur til að notfæra ykkur það og ylja ykkur í heitu pottunum þar. SJÓR áskilur sér rétt til að stöðva sund þeirra sem hann telur að séu hætt komnir. Þetta er erfitt sund og því gerum við þær kröfur á þá sem ætla að taka þátt að þeir hafi synt Fossvogssundið eða geti sýnt fram á að hafa reynslu af sjósundum. Við viljum benda sundfólki á að það er á eigin ábyrgð í sjónum.

KLEIFARVATN fimmtudagurinn 28.ágúst
Hittumst við norðurenda vatnsins, þann fyrsta ef komið er frá Hafnafirði kl. 17:30. Kleifarvatn er kaldara en sjórinn, en það skrítna er að líkaminn er mjög fljótur að aðlagast vatninu. Kleifarvatn er öðruvísi á bragðið og liturinn er miklu blárri. Nauðsynlegt er að hafa með sér sundgleraugu, þar sem gaman er að skoða botninn. Svo förum við í Ásvallalaug á eftir. Það er nokkur spotti þangað og því ekki verra að taka einhvern með sem ætlar að horfa á og getur keyrt ókaldur í laugina.

ÁLFTANES – HAUSASTAÐAVÖR fimmtudaginn 11.september
Mælting kl. 18 – Fjaran við Hausastaði er æðisleg og útsýnið út Reykjanesið ægifagurt þarna. Við ætlum að njóta þessa og synda saman frá Hausastöðum í átt að Draugaskerjum. Eftir sjósund verður skundað í sundlaug Álftnesinga, legið í pottum, rennibrautin prófuð og þeir sem hafa ekki fengið nóg af öldum geta skellt sér í öldulaugina. Beygt til vinstri af veginum út á Álftanes rétt áður en farið er að hringtorginu og síðan fyrsta beygja til hægri út að Hliðsnesveg.

ÞAÐ SEM VIÐ ÆTLUM AÐ GERA Í GÓÐU VEÐRI Í SUMAR – SKYNDIÁKVARÐANIR
GARÐUR REYKJANESI – heimsókn og sjósund í fjöruna við Garðsskagavita er eitthvað það allra besta. Við stefnum á að efna til hópferðar þangað í sumar. það verður bara að vera gott veður. Við bíðum færis og sendum þá út skilaboð til ykkar. Eftir sjósund verður svo farið í sundlaugina í Garði.

HEIMSÓKN UPP Á SKAGA Í ÖLDUR – Hverjir muna ekki ferðina um árið þegar við lékum okkur í skemmtilegum öldum upp á Skaga? Okkur langar að reyna að endurtaka leikinn og skjótast upp eftir þegar ölduspáin er fín. Hóum þá í ykkur.

DAGSFERÐ UPP Á REYKHÓLA – Skoða þörungaverksmiðjuna og skella sér í sjóinn. Ferðin verður skipulögð af Hugrúnu og Jóhönnu og verður auglýst um leið og dagsetning verður kominn.

SUMARSÓLSTÖÐUR OG SÓLSETURSSUND – Höfum fagnað sumarsólstöðum og eins synt á móti sólsetri. Ef veður leyfir þá er meira en líklegt að við skellum okkur saman í slík sund og látum ykkur þá vita.

Share