Skrif félaga SJÓR: Kolbrún Karls

July 1, 2011 by
Filed under: Fréttir 

Er Nauthólsvíkin fyrir alla?

Nýjasta dellan á mínum bæ er sjósund, sem er að sögn allra meina bót. Í gær fór ég á aðalsundstað Reykvíkinga, Nauthólsvík. Nokkrir einstaklingar notuðu þjóðhátíðardaginn í kyrrðinni í víkinni og þar sem hitastig sjávar er komið yfir 10°c fer fólk að teygja sig lengra út í víkina og jafnvel yfir. Þegar sundgarparnir voru komnir í pottinn úr sundferðum út í bátana í miðri víkinni og yfir víkina komu  tvær jet-ski þotur og þeystust um af miklum móð. Eflaust er rosalega gaman að þeytast um á svona tækjum á miklum hraða um sjóinn, það gæti hins vegar orðið afdrifaríkt fyrir „ekilinn“ að rota óvart manneskju sem er á sundi um sjóinn og drekkja viðkomandi.

Þetta svæði er skilgreint sem hafnarsvæði og er hámarks-siglingarhraði settur. Auðvitað er áhætta að synda í sjónum, hins vegar er líka áhætta að fara þarna inn á hraðskreiðum siglingartækjum. Lögreglan kom ekki fyrr en eftir dúk og disk, enda 17 júní, og ef einhver hefði verið í sjónum á sama tíma og þessi tæki, hefði það jafngilt rússneskri rúllettu. Leiðinlegt fyrir þann sem verður fyrir, en að sama skapi óskemmtilegt að örkumla manneskju eða hafa líf hennar á samviskunni. Ég vil biðja fólk um að virða gefin hámarks-siglingarhraða og hafa í huga að sjósundsfólki fer fjölgandi, enda einstaklega skemmtilegt fólk sem stundar þetta sport!

Kv. Kolbrún Karls

Share

Comments

5 Comments on Skrif félaga SJÓR: Kolbrún Karls

 1. Óttarr Hrafnkelsson on Mon, 4th Jul 2011 13:14
 2. Nauthólsvíkin er fyrir alla, líka báta, sæþotur og önnur fljótandi farartæki. Okkur sem vinnum í siglingaklúbbnum Siglunesi í Nauthólsvík finnst sundfólkið oft fara helst til óvarlega og er alveg með ólíkindum hvernig fólk kastar sér í sjóinn fyrir framan gæslubátana okkar. Það er skrítið að upplifa hvernig margt sundfólk varpar allri ábyrgð á þá sem sigla á sjónum, að rétturinn sé sundfólksins og allir aðrir eigi að víkja fyrir sundfólkinu. Við kennum börnum m.a. að sigla á seglbátum. Lítill seglbátur með 9 ára gamalt barn við stýrið getur stórslasað manneskju í sjónum, hver myndi vera ábyrgðaraðilinn í því máli? Við höfum reynt að kynna þá stefnu að sundfólk syndi meðfram ströndinni en sé ekki að að fara út á sjó og með því í bátaumferðina. Reyndar höfum við gengið svo langt að tala um að fólk ætti ekki að fara lengra frá landi en svo að maður ætti alltaf að vera það nálægt landi að maður nái til botns með fótunum. Hver er ábyrgð sundfólks? Við björgum á hverju ári fjölda fólks úr sjónum sem er orðið örmagna og hangir utan á bátunum okkar sem liggja við legufærin. Þeir bátar eru ekki hvíldarstaðir eða björgunarbátar og það er alveg óþolandi að fólk sé að fara um borð í bátana og valda skemmdum í gáleysi. En auðvitað er gott að fólk fari um borð í þessa báta frekar en að drukkna en það er óábyrgt að nota heppnina í svo miklum mæli eins og margir virðast gera til þess að skipuleggja sundferðina sína.

  Með kveðju Óttarr Hrafnkelsson deildarstjóri siglingaklúbbsins Siglunes, Nauthólsvík

 3. Kristín Helgadóttir on Tue, 5th Jul 2011 23:04
 4. Ég get ekki séð að Kolbrún sé á nokkurn hátt að gagnrýna starfsemi siglingaklúbbsins í Nauthólsvíkinni eða siglingaklúbbsins Ýmis í Kópavogi. en það sem hræðir okkur sundmennina, líka okkur sem syndum meðfram ströndinni, eru misgáfaðir menn á sæþotum. Aftur og aftur sér maður þá koma á þvílíkri ferð inn í voginn að manni er um og ó. Það eru jú til einhver lög sem banna svona hraðsiglingar á þessu svæði.
  Hér er verið að velta upp þeirri spurningu hvort og hvernig sé hægt að koma í veg fyrir slys af þeirra völdum.

  Með kveðju,
  Kristín Helgadóttir
  meðlimur SJÓR

 5. Kolbrún Karls on Thu, 7th Jul 2011 12:40
 6. Gott að fá viðbrögð, mér var bent á að þetta væri komið hér inn í gær. Óttarr, ég er ekki að amast út í siglingakrakkana, enda um allt annan hraða að ræða en á jet-ski töffurunum. Eflaust erum við sjósundsfólkið misjöfn eins og við erum mörg. Mig grunar þó að margir sem eru að synda sín fyrstu tök séu ekki meðvitaðir um reglurnar í sambandi við bátana og eflaust er fólk mis tillitsamt og meðvitað. Er þetta ekki spurning um að ræða málin og komast að samkomulagi?
  Nauthólsvíkin býður upp á frábæra aðstöðu og þangað sækir fólk og það er gott! Ég sjálf er meðvituð um seglskúturnar og passa mig ef ég er á sama tíma og krakkarnir. Ég lít á bátana sem visst öryggi og hef nýtt mér þá í erfiðleikum, ég get samt ekki alveg skilið að jet-ski þurfi að þvælast inn í þessa vík, nóg pláss er í sjónum og það er svo mikill hraði að ekki er hægt að koma sér í burtu og ég efa að þeir sem þeytast um á svona mikilli ferð geti séð koll upp úr sjónum í tæka tíð eða séu yfir höfuð að spá í hvort einhver sé í sjónum.

  Mig langaði bara að opna umræðuna því mitt mottó er að ræða málin áður en þau verða að einhverju vandamáli. Opin umræða er betri en ergelsi hver í sínu horni.

 7. Eggert Vébjörnsson on Fri, 8th Jul 2011 21:39
 8. Hefði haldið að það væri sameiginlegt hagsmunamál sjósundfólks og siglingaklúbbsins Sigluness að jet-ski og hraðbátar væru ekki að sigla á fullu gasi innan um sjósund fólk og 9 ára börn á seglbátum.
  Eða er það æskilegt að horfa upp á jet ski og önnur vélknúin faratæki þeysa innan um börnin?
  Skil því ekki þennan hundshaus og skítkast af hálfu Óttars útí sjósundfólk því tæpast getur það talið málefnalegt þar sem ég veit ekki til þess að sjósund fólk hafi verið að valda miklum skemmdum á búnaði hjá siglingaklúbbnum og hef ég stundað sjósundið í um 3 ár.
  Veit um nokkur dæmi þess að þurft hafi að bjarga fólki úr sjó en veit ekki til þess að um fjölda fólks sé að ræða eins og Óttarr fullyrðir en það hefði tæpast farið framhjá mér ef svo væri þar sem ég stunda sjósundið árið um kring.
  Einnig veit ég ekki til þess að sjósundfólk sé að amast yfir siglingaklúbbnum né öðru áhugafólki um sjósport nema þá helst jet skiunum sem hætta stafar af bæði fyrir sjósund fólk og eins börnin sem eru oft á tíðum að læra sín fyrstu handbrögð varðandi selgbáta og annað sjávarsport.
  Því væri fróðlegt ef að þú Óttarr gætir látið svo lítið að svara hvað þér gengur eiginlega til hvað þetta komment þitt varðar því það er eiginlega lítið annað en skítkast og óhróður um sjósund fólk hvernig sem á það er litið.

 9. Sjóhundur on Thu, 1st Sep 2011 16:29
 10. Flott grein hjá þér, Kolla..

Tell me what you're thinking...
and oh, if you want a pic to show with your comment, go get a gravatar!