Opnum aftur á laugardögum

September 19, 2013 by
Filed under: Fréttir 

18.sept 029

Miðvikudaginn 18. september var borgarstjórn Reykjavíkur og fulltrúum ÍTR boðið að koma í sjósund með stjórn Sjósunds- og sjóbaðsfélagi Reykjavíkur. Því miður sá enginn sér fært um að koma og hörmum við það mjög. En Nauthólsvíkin skartaði einmitt sínu fegursta og fjöldi manns var að nýta sér þessa perlu sem við höfum hér á besta stað í borginni. Fjöldinn allur af krökkum úr Háleitisskóla naut veðurblíðunnar og léku sér á ströndinnu auk þess sem talsverður fjöldi sjósyndara (80-90 manns) synti á spegilsléttum sjónum. Sjósund er orðið vinsæl íþrótt og mikill fjöldi stundar hana allann ársins hring. Enda efast enginn sem stundar sjósund um þau góðu áhrif sem það hefur á sál og líkama.

Á síðustu árum hafa sjósundsfélög verið stofnuð víða um land. Við hér í höfuðborginni erum stolt af þeirri frábæru aðstöðu sem er til staðar í Nauthólsvík, þar sem sjósundi er virkilega gert hátt undir höfði með prýðisgóðri búningsaðstöðu, heitum potti og gufubaði.

Vetraropnun í Nauthólsvíkinni er orðinn partur af lífi fjölda fólks sem stundar sína íþróttaiðkun og útivist á svæðinu. Einnig hefur hún mikið gildi fyrir ferðamannaiðnaðinn og fjöldi útlendinga kemur til að prófa sjóinn og njóta þess að sitja í pottinum í hvaða veðri sem er. Enda einstakt að þurfa ekki að fara lengra til að njóta útivistar og náttúru.

18.sept 014Á veturnar er opnunartíminn öll virk hádegi frá 11-13 og svo mánudaga og miðvikudaga frá kl 17-19 og hefur aðsóknin verið að aukast og oft þröngt um manninn í pottinum. Veturinn 2012-2013 var byrjað að rukka gjald fyrir notkun á Nauthólsvík á veturnar en þjónustan var ekki aukinn né aðstaðan betrumbætt. Eftir áramót var gerð tilraun með að hafa líka opið á laugardögum milli 11-13 og var þeirri nýbreytni vel tekið enda ekki allir sem geta notfært sér hádegisopnanir á virkum dögum. Þessi tími hentaði vel  fjölskyldufólki sem naut þess að vera saman á staðnum. Núna í haust var okkur tjáð að þessari opnun yrði hætt. Við viljum hvetja fulltrúa ÍTR og borgarstjórn Reykjavíkur að endurskoða þessa ákvörðun sína. Við eigum að nota stað eins Nauthólsvík allan ársins hring og bjóða þannig borgarbúum upp á fjölbreytta afþreyingu fyrir fjölskylduna og einstakt umhverfi til að stunda sjósund og heilnæma útivist og þess að sitja í pottinum í hvaða veðri sem er. Enda einstakt að þurfa ekki að fara lengra til að njóta útivistar og náttúru.

18.sept 009

 Bréf sent fulltrúum ÍTR og borgarstjórn Reykjavíkurborgar 19. september 2013

Ragnheiður Valgarðsóttir   Formaður Sjósunds- og sjóbaðsfélags Reykjavíkur

PS: myndirnar eru teknar 18. september

 

Share

Comments

Tell me what you're thinking...
and oh, if you want a pic to show with your comment, go get a gravatar!