Varnaðarorð fyrir sjósundsiðkendur

January 24, 2014 by
Filed under: Fréttir 

Það er tilvalið að setja aftur efst á síðuna okkar þau varnaðarorð sem Árni Þór skrifaði árið 2010.
Þau eiga alltaf við og gott að minna sig á þau annað slagið.
****

Ein af aðalástæðum fyrir stofnun félagsins var að efla öryggi og koma á framfæri öryggismálum til þeirra sem væru að stunda sjósund eða sjóböð í Nauthólsvík og annarsstaðar. Við trúum því að þetta frábæra jaðarsport eigi bara eftir að stækka í fjölda iðkenda á komandi árum og því klárlega þörf á félagi til að halda utan um hlutina og hafa talsmann, sem er SJÓR.

SJÓR hefur nú þegar haldið námskeið í fyrstu hjálp við góðar undirtektir og eins var haldið námskeið í endurlífgun, sem einnig var vel sótt af félagsmönnum.

Þeir sem þetta sport stunda þurfa þó á stöðugri áminningu um öryggi að halda og það er auðvelt að gleyma sér í „hita“ leiksins og synda of langt út og hyggja ekki að öryggi sínu.

Sjósund er frábær skemmtun og ögrandi áhugamál, en sé óvarlega farið, getur þessi skemmtun breyst í sára reynslu okkar allra, ef alvarlegt slys myndi eiga sér stað eða hreinlega drukknun.

Við þurfum því öll að taka höndum saman og fylgjast hvert með öðru. Núna þegar haustar kólnar sjórinn hratt og mjög óráðlegt að synda langt frá landi, sér í lagi ef fólk er eitt á ferð. Við í stjórn SJÓR erum alfarið á móti því að fólk syndi eitt, því við vitum af reynslu að það er margt sem getur farið úrskeiðis. Það þarf ekki annað en fólk komi illa sofið, illa nært , hafi nýlega verið lasið til að úthald líkamans sé skert! Eins er mjög óráðlegt að elta annan sundmann nema þekkja hann mjög vel, þar sem líkamleg geta getur verið mjög ólík í þessum aðstæðum. Skiptir þá engu máli hve vel manneskjan virðist í góðu formi!

SJÓR, ÍTR og Reykjavíkurborg, ásamt fleirum hafa fundað um öryggismál, en uppi eru ýmis sjónarmið í því hversu langt reglur eigi að ganga. Sjósund er jaðarsport og reglur eru ekki efst í huga okkar sjósundsfólks, en við verðum að hugsa lengra og spá í það hvernig nærumhverfi okkar, velunnarar, fjölmiðlar og aðrir myndu taka á okkur ef um alvarlegan atburð væri að ræða!

Verum ábyrg, svo við getum notið sjósunds sem lengst, áhyggjulaus og glöð í sjónum okkar.

Árni Þór

Share

Comments

2 Comments on Varnaðarorð fyrir sjósundsiðkendur

  1. Magnús Halldórsson on Mon, 17th Feb 2014 16:43
  2. Heil og sæl öll., Unnnendur sjávar, sunds og sælu.

    Tek undir varnaðarorð Árna Þórs en nú eru rúmar þrjár vikur síðan hann lét þessi orð falla. Á þeim tíma hef ég komið nokkrum sinnum í viku í hádeginu. Hef undrast hve margir eru að synda einir í sjónum. Þar á meðal eru þó nokkrir félagar í sjósundfélaginu. Ætla rétt að vona að ekki sé beðið eftir slysi áður en vakning verður. Það er búið að margsegja af mér reyndari mönnum að það sé of mikil áhætta fólgin í því að synda einn. Það sé það margt sem geti komið uppá og það sé ekki nóg að hugsa með sér: ” Ég er svo öruggur það er allt í lagi með mig”. nú eru nógu margir sem mæta að það ætti í flestum tilfellum að vera auðvelt að synda í félagi við einhvern. Höfum þetta í huga þegar sólin hækkar á lofti og æ fleiri bregða sér í sjóinn. Pössum hvert annað og syndum ekki ein.

    Með sjósundkveðju og þökkum til þeirra sem eru í fararbroddi í sjósundfélaginu og hafa greitt götu okkar hinna.

  3. Sanne on Wed, 20th Aug 2014 03:04
  4. There’s a secret about your post. ICHKITBTTYY

Tell me what you're thinking...
and oh, if you want a pic to show with your comment, go get a gravatar!