Nýárshugvekja formanns

January 2, 2010 by
Filed under: Benni 

Nýárshugvekja formanns
Nú í upphafi nýs árs er ekki úr vegi að velta fyrir sér því sem koma skal og þess sem liðið er.
Má fyrst geta að Sjósunds- og sjóbaðsfélag Reykjavíkur (SJÓR) var stofnað á nýársdag. Með því er komin von um bætta aðstöðu og meira líf en þegar er, þó nokkuð sé. Ljóst er að fjöldi stofnfélaga fór fram úr björtustu vonum. Talningu er ekki enn lokið enda enn hægt að gerast stofnfélagi á netinu á sjósund.is. Á fundinum var kosin framvarðasveit sem starfa mun fram að aðalfundi. Hana skipa Benni, Árni Þór, Biggi tindur, Jóhanna Fríða og Guðný klerkur. Stefán og Sif voru kosin í varastjórn. Við val á stjórnarmönnum var tekið tillit til kyns og að allir flokkar iðkenda ættu sinn talsmann.
Seinasta ár var gott ár fyrir sjósunds og sjóbaðsiðkendur. Fyrir það fyrsta var veður hagstætt hér sunnanlands. Sjávarhiti meiri en elstu menn muna. Fjöldi iðkenda margfaldaðist, þó ekki sé með nokkru móti hægt að segja til um hversu mikið, vegna þess að ekki eru haldnar skrár yfir sumarmánuðina. Mikið var um að vera í sjósundskemmtunum um allt land. Nítján manna hópur fór frá Reykjavík í júní mánuði til Stykkishólms og átti þar unaðslegan dag saman við sund á fallegum haffleti. Fáir staðir henta betur til sjósunds en Hólmurinn. Ekki skrítið að svona margir sjósundsmenn koma þaðan. Aldrei hafa fleiri synt Drangeyjarsund en á sumri liðnu. Fimm manna sveit sundmanna synti frá Árskógströnd og út í Hrísey. Önnur fimm manna sveit kláraði Fimmeyjasundið; sund milli allra eyjanna norðanvert við Reykjavík. Tveir einstaklingar syntu frá landi og út í Grímsey á Vestfjörðum. Viðeyjarsund var þreytt og hópsund frá Skarfakletti og út í Viðey og til baka. Einnig synti hópur Skarfaskerssund. Mikil þátttaka var í sundi yfir Pollinn á Akureyri á landsmóti UMFÍ. Fossvogssundið var fjölmennt og einnig Íslandsmótið í sjósundi sem fram fór í Nauthólsvík. Þetta er aðeins lítið brot af því sem sundmenn höfðu fyrir stafni á liðnu ári. Rúsínan í pylsuendanum er sprengingin sem orðið hefur í vetrarbaðsiðkuninni sem engan endi ætlar að taka. Þetta er örugglega enn eitt heimsmetið.
Með tilkomu Sjósunds-og sjóbaðsfélags Reykjavíkur er von á miklu lífi í sundskemmtanir og uppákomur tengdu strandlífi. ÍTR hefur óskað eftir fundi með þessu nýja félagi til að kanna hvað hægt er að gera, því búið er að sprengja þá aðstöðu sem Reykjavík hefur upp á að bjóða.
Ég hef heyrt drauma sjósundsfólks sem eru allt frá því að geta synt að fyrstu, annarri bauju eða yfir Fossvoginn og upp í miklu draumkenndari sund. Hver hefur sín markmið og sína drauma. Mig langar að hjálpa þessu fólki til að láta drauma sína rætast.
Í dag, annan dag janúar, gerði ég munnlegt samkomulag um að taka að mér hópa útlendinga og aðstoða þá við sjósund, en við höfum orðið vör við áhuga erlendis frá.
Af upptalningunni að ofan má ljóst vera að það er bara bjart framundan í sjósundinu og sjóböðunum.
Fegurð, félagsskapur, gætni.
Gleðilegt sjóár.
Benedikt Hjartarson

Share

Comments

Tell me what you're thinking...
and oh, if you want a pic to show with your comment, go get a gravatar!