Sund út í Viðey í máli og myndum.

August 22, 2010 by
Filed under: Fréttir 

Það var fjölmenni sem tók þátt í Sundi út í Viðey þetta skiptið.  Um  150 manns skráðu sig í sundið og um helmingurinn fór báðar leiðir í vindi og ágætis ölduhæð.  Allt gekk að óskum og engin slys né meiðsli komu upp.  Ákveðið var vegna aðstæðna að tvískipta hópnum. Þeir sem ætluðu aðra leiðina þyrftu að fara með bát út í Viðey og synda þaðan í land, og þeir sem ætluðu báðar leiðir þyrftu að bíða þar til búið væri að ferja sundkappa út í Viðey.  Þeir sem fóru báðar leiðir lentu í miklum straumi þegar komið var út fyrir hafnarmynnið og hægðist mikið á fólki á 200 metra kafla en lagaðist síðan þegar nær dró Viðey.  Síðan þegar komið var til Viðeyjar synti hópurinn sem þar var af stað til lands.

IMG_2414

Ákveðið var að byrja sundið inni í höfninni eins og komið hefur fram, en allir sundmenn syntu síðan inn að Skarfakletti þegar komið var að landi aftur og er sú aðkoma frábær í alla staði, Stór klettur og falleg lítil fjara.

Myndir eru komnar inn í Myndagalleríið og einnig eru HÉR myndir sem Sigurjón Pétursson tók og þökkum við honum fyrir.

Ekki er hægt að halda svona atburð án mikils öryggis.  Óhætt er að segja að SJÓR hafi fengið hjálp frá mörgum þetta skiptið.  Þegar mest var taldist til Lóðsbátur frá Reykjavíkurhöfn, 7 bátar frá Sjóbjörgunarsveitum, Lögreglunni, Skátasveitum og Gúmmíbátum og göllum.  Einnig voru 5 kayakar frá Kayakklúbbnum og 3 Sæþotur frá einkaaðilum.  Viljum við þakka þessum aðilum fyrir mikla hjálp, óhætt að segja að þetta sund hefði ekki verið framkvæmt án hjálpar frá þessum aðilum.

SJÓR lét hanna boli sem á stendur “Ég synti til Viðeyjar” og voru þeir til sölu á staðnum. Einnig verða þessir bolir til sölu niðri í Nauthólsvík eitthvað á næstunni.   Einnig viljum við í Stjórninni fá að vita um það sem betur má fara í svona viðburðum.  Allar athugasemdir eru vel þegnar og þarf bara að fara í “Um félagið” flipan og velja þar “ábendingar til stjórnar SJÓR”

Að lokum viljum við óska öllum þeim sem náðu markmiði sínu þennan dag til hamingju.

Share

Comments

2 Comments on Sund út í Viðey í máli og myndum.

 1. Kristín Helgadóttir on Mon, 23rd Aug 2010 15:28
 2. ég er ekkert smá ánægð með kajakana sem voru þarna. Veittu manni mikla öryggistilfinningu. Takk fyrir frábæra skipulagningu snillilngar!

 3. Ragnar Torfi Geirsson on Fri, 27th Aug 2010 21:33
 4. Þegar ég skoða þessar myndir er ég eitt bros. Þetta var svo rosalega gaman!
  Skipulagið var flott. Það var mjög traustvekjandi að sjá alla bátana þarna í kring og stemmingin var frábær.
  Tilfinningin að klára eitthvað sund eins og þetta var góð, en gleðin hjá öllum í sundinu er það sem situr eftir. Það er frábært að vera innan um svona skammtilegan og lífsglaðan hóp.
  Þetta var í fyrsta sinn sem ég fer milli Viðeyjar og lands og ég er strax farinn að hlakka til næsta sumars.
  Þá ætla ég að synda fram og til baka.

Tell me what you're thinking...
and oh, if you want a pic to show with your comment, go get a gravatar!