Yfirheyrslan: Þóra Ólafsdóttir

Yfirheyrslan

Hvernig  atvikaðist það að þú fórst að synda í sjónum?

Svar_____Ragnheiður Björk vinkona mín var í þó nokkurn tíma búin að stunda sjósund og eiginlega manaði mig til að prufa. Ég er frekar leiðitöm en eitthvað heillaði mig og lét slag standa og ákvað að hitta hana í Nauthólsvík – hugsaði samt á leiðinni hvað ertu eiginlega að fara út í. En þetta er ekki í fyrsta sinn sem þessi kæra vinkona hefur stýrt mér obbulítið. Þegar á hólminn var komin var ég sannfærð um að þetta yrði lítið mál, ávallt verið heitfeng og ágætlega bólstruð og hugsaði til sjósunds Guðlaugs þar sem breskar rannsóknir sýndu að fitulagið skipti miklu máli. En þegar ég sá allar þessar flottu spengilegu mannverur sem syntu eiginlega til Kópavogs og ekki tuttla utan á þeim varð mér um og ó.

Enda kom á daginn eftir að hafa gengið ofurvarlega í sjóinn og farin að taka sundtökin – stefndi að sjálfsögðu á  fyrstu bauju en því takmarki náði ég ekki – var ég þeirri stund fengust að hafa aftur fast land undir fótum. Náði góðu taki á handriðinu og hélt mér þar fast og reyndi að bera mig mannalega við að ganga upp landganginn þótt mér fyndist eins og það væri að líða yfir mig.  Síðan er liðin mánuður og nú finnst mér ég vera eins og hinar hetjurnar – komin með þessa líka fínu hanska og Ragnheiður Björk gaf mér í afmælisgjöf sokka á hægri fót og ég keypti á þann vinstri – svo nú er ég fær í flestan sjó.

Í hvernig sundhettu langar þig mest ?

Ánægð með bláu blúnduhettuna sem ég keypti mér í Útilíf

Hvar er draumurinn að synda?

Í Rangánni – hún er svo hrein og tær og liðast svo fallega um sveitir Rangárþings.  Ekkert því til fyrirstöðu að láta reyna á það næsta sumar

Eftirminnilegasti sundstaðurinn

Við Langavatn af stórum sléttum steini stungum við okkur tvær til sunds.  Ekki viss um að það sé hollt.

Náði ekki andanum í heila eilífð.

Hvað hefur sjósundið gert fyrir þig?

Það er ótrúleg vellíðan sem fylgir því að hafa farið í sjóinn og ekki spillir fyrir félagsskapurinn í heita pottinum

Stefnir þú á klettinn í sumar?

Hver veit – Röggu er ekkert heilagt…

Ætlar þú að taka þátt í hópsundi í sumar?

Tvímælalaust

Er Sjósund smart eða púkó?

Ótrúlega gaman þegar ég sagði vinnufélögunum frá sjósundinu – strákarnir horfðu á mig aðdáunaraugum – hafa ekki gert það í mörg ár

Syndari eða syndgari?

Syndari – ekki spurning

Hvað ertu að gera þessa dagana?

Er í hörkupúli í Hreyfingu þrisvar í viku – og svo sjósundið tvisvar – og svo vinnan.

Hvenær og hvar ertu hamingjusöm/samur?

Á hestbaki á mjúkum moldargötum í góðum félagsskap.

Share