Yfirheyrslan: Ragnar Torfi Geirsson

Hvernig atvikaðist það að þú fórst að synda í sjónum?

Það var fyrir tilviljun.  Á pálmasunnudag 2009 var ég á leiðinni í fermingarveislu og var of  snemma á ferðinni.  Tók smá rúnt niður í Nauthólsvík að líta á nýbyggingu HR.   Í Nauthólsvík sá ég tilkynningu um páskaopnun Ylstrandarinnar og fannst ótrúlegt að einhver væri að mæta þar að vetrarlagi.  Varð að sjá hvers konar vitleysingar væru þarna á ferð og mætti í næstu opnun.

Sjórinn var þá 4 gráður og ég komst útí næstum upp að hnjám.  Fannst ég nokkuð góður með þann árangur en þegar ég sá fólk á öllum aldri og báðum kynjum stinga sér til sunds eins og ekkert væri, áttaði ég mig á því að ég yrði að fara lengra.

Þetta er fyrst og fremst spurning um að sigra sjálfan sig.  Eftir nokkrar sekúndur í vatninu finnst mér það ekki vera kalt.  Í fyrstu skiptin var ég dauðskelfdur að synda frá landi og fannst allir synda betur en ég.  Svo fór ég bara í kjölfarið á einhverjum hóp og reiknaði með að hann myndi bjarga mér.    Ég fann strax að þessir reyndari eru allir af vilja gerðir að leiðbeina nýliðum. Ég komst út í fyrri bauju í svona sjöunda skiptið sem ég mætti.   Þá var ég fallinn. Nú reyni ég að mæta tvisvar í viku.  Syndi rétt í kringum fyrri bauju á veturna.  Á sumrin eru sundferðirnar lengri, út fyrir bátana og jafnvel yfir voginn.

Þegar ég byrjaði að synda var sjórinn að volgna upp úr 4 gráðum í 5.  Mér fannst hann lengi að ná hita.  Sumarið 2009 var sjórinn mjög volgur og ég stóð mig að því að hlakka til að hann kólnaði aftur.  Ég missti af Nýjárssundinu 2010 þegar sjórinn var kaldastur.  Varð svekktur því innst inni hafði ég hlakkað til að komast í alvöru kaldan sjó.   Það kaldasta sem ég hef komist í er 1,2 í mínus.  Nú finnst mér hitastigið alltaf rétt.

Ég hef þrisvar mætt í millimánaðasund.  Það er ógleymanleg upplifun að fljóta úti við bauju um miðnætti og horfa á ljósin í bænum eða bara á tunglið.

Í hvernig sundhettu langar þig mest ?

Einhverja með innbyggðum aðvörunarljósum eða verðlaunahettu fyrir að hafa synt Ermasundið.

Hvar er draumurinn að synda?

Í Eyjafirði.  Ég synti þar örstutt síðasta sumar og svo á Nýjársdag.  Fannst sjórinn vera einhvern veginn ferskari.  Markmið að komast út í Hrísey einhvern tíma.

Eftirminnilegasti sundstaðurinn

Frá Viðey og í land í sumar.   Stemmingin var æðisleg.  Öldurnar voru aðeins hærri en hausinn á mér og mér leið eins og ég væri úti á rúmsjó.  Stundum hurfu allir sundfélagarnir á bak við næstu öldu og þá var ég aleinn.  Næst syndi ég fram og til baka.

Hvað hefur sjósundið gert fyrir þig?

Líkamlega; betra kulda- og hitaþol.  Man ekki eftir að hafa fengið kvef síðustu tvö ár.  Öll vöðvabólga virðist skolast burtu við baujuna ásamt stressinu.

Andlega; minna stress.  Það er fátt þægilegra en að sitja í pottinum í góðum félagsskap eftir að hafa tekið sundsprettinn.  Þetta er jákvæðasti hópur sem ég hef kynnst enda er allt krepputal bannað í pottinum.  Þegar áskoranir mæta mér í dag hugsa ég stundum að þær geti ekki verið erfiðari en sjósund í frosti.

Stefnir þú á klettinn í sumar?

Að sjálfsögðu.  Er þegar byrjaður að hanna hoppið.  Ég stökk af klettinum í sumar þegar keppnin var yfirstaðin.  Vildi ekki trufla einbeitingu hinna.

Ætlar þú að taka þátt í hópsundi í sumar?

Já, pottþétt.  Yfir í Kópavog og út í Viðey eru skyldusund.   Tók þátt í Íslandsmótinu í sumar og fór 1 km.  Var ánægður með tímann enda synti ég bara bringusund. Svo er að sjá hvað Skemmtilega Nefndin býður uppá.  Treysti henni fullkomlega.

Er Sjósund smart eða púkó?

Í sjósundinu kemst maður næst náttúrunni, megnið af kroppnum fyrir neðan sjávarmál og hausinn upp úr.  Þegar sjórinn er við rétt hitastig er maður líka svo SMART bleikur þegar uppúr er komið.

Syndari eða syndgari?

Sjósyndarar verða svo lífsglaðir og jákvæðir að þeir geta varla syndgað.   Helst að þeir svíkist um í vinnunni við dagdrauma um öldugang og busl.

Hvað ertu að gera þessa dagana?

Ég starfa í Launadeild Íslandsbanka.  Þar er alltaf næg verkefni, sérstaklega um áramót.   Mér finnst gaman að ferðast og lesa.  Ég reyni að ganga á fjöll þegar færi gefst.  Fór á Hvannadalshnjúk, Snæfellsjökul og fleiri fjöll í fyrra og reyndi við Glerárdalshringinn.  Stefni á að klára Glerárdalshringinn í sumar og er byrjaður að hugsa um æfingaprógrammið.

Hvenær og hvar ertu hamingjusamur?

Yfirleitt þegar ég er vakandi og þar sem ég er á hverjum tíma.

Share