Yfirheyrslan: Boga Kristín Kristinsdóttir

Hvernig atvikaðist það að þú fórst að synda í sjónum?

Frábær vinnufélagi ýtti mér útí fyrst í mars í fyrra.  Fór í nokkur skipti, en síðan fyrir alvöru í haust með góðri vinkonu, og ekki verður aftur snúið. Eiginlega var þetta orðið spurning hvenær ég myndi byrja.  Ég stefni á að synda á 50 stöðum í kringum Ísland þegar ég verð fimmtug.  Tók þessa ákvörðun þegar ég var upp á fjallstindi árið 2008 þegar ég tók tindatöltið mitt, 45 tinda á 45 ára afmælisárinu

Í hvernig sundhettu langar þig mest ?

Appelsínugula með blómum

Hvar er draumurinn að synda? Inn á milli eyja í Breiðafirði.

Eftirminnilegasti sundstaðurinn

Costa del Sóllaus við Tjaldanes í Saurbæ Dölum, að synda og skvettast með Grímu systir í den.

Hvað hefur sjósundið gert fyrir þig?

Mjög mikið, bæði andlega og líkamlega.  Kvef og pestar eru hættar að sækja mig heim, og ég held að ég sé miklu skemmtilegri en ég var.

Stefnir þú á klettinn í sumar?

Já, ekki spurning.  Farin að fá fiðrildi í magann og aðeins farin að gjóa augunum í áttina að honum

Ætlar þú að taka þátt í hópsundi í sumar?

Já, stefni á það.  Bæði til Kópavogs og út í Viðey.  Dauðlangar að taka þátt í Grímseyjarsundi í Steingrímsfirði

Er Sjósund smart eða púkó?

Sjósund er súpersmart, og ég mala um það við hvert tækifæri.  Það er pínu Avatar í okkur sjósundfólki, og mikil tenging við djúpin blá.

Syndari eða syndgari? Öruggur Syndari

Hvað ertu að gera þessa dagana?

Ég starfa hjá CCP og þar er nóg að gera og skemmtilegt að vera. Ég stunda líka langhlaup og stefni á að fara Laugaveginn í sumar.  Svo trítla ég á einhverja tinda líka og sulla í flæðarmálum til að upplifa sjósund að sumarlagi

Hvenær og hvar ertu hamingjusöm/samur?

Eftir góða hreyfingu ekki spurning og þá helst uppi á fjallstindi og horfa yfir landið mitt, sjá svo langt sem augað eygir, verða hálf skyggn og þykjast sjá í gegnum fjöll og firði. Er ansi hamingjusöm yfir að hafa heilsu og geta það sem ég geri í dag, bara skemmtileg. Það er vor í lofti og bjart framundan eins og ein vinkona mín segir alltaf

Share