Bessastaðasund (2,4/4,5 km)

Mjög spennandi sund!

Sundfólk sem ákveður að taka þátt, hefur tvo möguleika, annars vegar að synda lengra sundið eða 4.5 km, en þá er synt frá víkinni við  Bessastaði,  eins og sést á myndinni og hins vegar að synda styttra sundið sem er sýnt á myndinni og er ca 2.4 km

Bátar munu fylgja okkur   Sundmenn verða fluttir yfir fjörðinn á báðar staðsetningar í tveimur hollum – þeir sem synda lengra sundið verða fyrr á ferðinni eða leggja af stað um 16:30 frá Nauthólsvík yfir fjörðinn og yfir að Bessastöðum – sú ferð tekur ca 20 mínútur, þannig að sundmenn verða að vera vel búnir, vera t.d í kraftgalla eða hlýjum slopp!

Fyrstu 30 sem mæta og skrá sig á staðnum í sundið, verða í forgangi í flutningi yfir fjörðinn, en þeir sem ekki mæta tímanlega og eða skrá sig, verða að koma sér sjálfir út að sundstað, eða þar sem sundið byrjar, hvora vegalengd sem fólk velur.  Þetta kemur til vegna fjölda báta sem við höfum til umráða í flutning.    Eins og alltaf verður vel fylgst með okkur.

Heiti potturinn bíður svo eftir sundmönnum þegar þeir koma syndandi inn í Nauthólsvíkina.  Flóðastaða ætti að vera okkur hagstæð, svo og veður.

Framkvæmdin og helstu atriði eru eftirfarandi:

1.      Lagt verður af stað með þá sem ætla að synda 4.5 km kl 16:30 og því verða þeir að koma aðeins fyrr og gera sig klára.

2.      Lagt verður af stað með þá sem ætla að synda 2.4 km kl 17:00 og þeir verða að vera tímanlega.

3.     Hægt er að biðja um tímatöku, ef fólk vill það en þá verður að biðja sérstaklega um það.

Meiningin er að fyrri sundhópurinn verði þá kominn ca út af byrjunarsundstað þeirra sem taka styttri leiðina og fólk syndi saman frá þeim stað, kjósi fólk að gera það.

4.      Fólk verður að vera vel nært og vel sofið – lykilatriði fyrir stór sund.  Mælum með hafragraut um morguninn og góðan hádegismat og svo aftur næring fyrir sundið, eitthvað kolvetnaríkt eins og t.d banani eða álíka.

5.     Orkudrykkir verða í boði Vífilfells – Powerade.

6.     Þeir sem eru fyrst og fremst á skemmtisundi, fylgjast með hvort öðru og rabba saman.

7.     Sjórinn er nokkuð hlýr, en hann ætti að vera frá 14 gráðum og upp í 16 gráður.  Er örlítið kaldari þegar utar dregur úr Nauthólsvík.

8.     Láta strax vita ef þið fáið krampa og eða ykkur fer að líða illa.  Ef þið verðið vör við svima, tapið áttum auðveldlega, látið þá strax taka ykkur upp, því það er engin skömm.  Dagsformið og líkamlegt ástand er svo mismunandi..

9.     Munið líka að ef þið syndið á marglyttur í sjónum, ekki missa stjórn á ykkur, því þetta eru bara litil geldýr, sem hafa ekkert illt í hyggju.  Ef þið brennið ykkur á þeim, þá er það ekki neitt stórkostlegt og auðvelt er að bregðast við slíku.

Að lokum vonum við að þetta verði hið ánægjulegasta sund, gangi ykkur vel og munið að mæta tímanlega!

Kær kveðja,  Stjórn SJÓR

Share