Skrif félaga SJÓR: Kolbrún Karls

July 1, 2011 by · 5 Comments
Filed under: Fréttir 

Er Nauthólsvíkin fyrir alla?

Nýjasta dellan á mínum bæ er sjósund, sem er að sögn allra meina bót. Í gær fór ég á aðalsundstað Reykvíkinga, Nauthólsvík. Nokkrir einstaklingar notuðu þjóðhátíðardaginn í kyrrðinni í víkinni og þar sem hitastig sjávar er komið yfir 10°c fer fólk að teygja sig lengra út í víkina og jafnvel yfir. Þegar sundgarparnir voru komnir í pottinn úr sundferðum út í bátana í miðri víkinni og yfir víkina komu  tvær jet-ski þotur og þeystust um af miklum móð. Eflaust er rosalega gaman að þeytast um á svona tækjum á miklum hraða um sjóinn, það gæti hins vegar orðið afdrifaríkt fyrir „ekilinn“ að rota óvart manneskju sem er á sundi um sjóinn og drekkja viðkomandi.

Þetta svæði er skilgreint sem hafnarsvæði og er hámarks-siglingarhraði settur. Auðvitað er áhætta að synda í sjónum, hins vegar er líka áhætta að fara þarna inn á hraðskreiðum siglingartækjum. Lögreglan kom ekki fyrr en eftir dúk og disk, enda 17 júní, og ef einhver hefði verið í sjónum á sama tíma og þessi tæki, hefði það jafngilt rússneskri rúllettu. Leiðinlegt fyrir þann sem verður fyrir, en að sama skapi óskemmtilegt að örkumla manneskju eða hafa líf hennar á samviskunni. Ég vil biðja fólk um að virða gefin hámarks-siglingarhraða og hafa í huga að sjósundsfólki fer fjölgandi, enda einstaklega skemmtilegt fólk sem stundar þetta sport!

Kv. Kolbrún Karls

Share

Kveðja frá SJÓR-félaga í Osló

November 22, 2010 by · 3 Comments
Filed under: Fréttir 

Okkur barst frábært bréf frá Eygló Halldórsdóttur í Osló, félaga í SJÓR, þar sem hún lýsir sjósundsafrekum í Noregi:

Ég er nú búin að vera hér í Noregi í rúma 3 mánuði og hef að sjálfsögðu ekki slegið slöku við í sjósundinu. Hér á eftir fer skrá yfir og smá úttekt á þeim stöðum sem ég hef prófað og Norðmenn kalla strendur eða “stranda” en hafa ekki uppá mikið að bjóða miðað við þá frábæru aðstöðu sem við höfum í Nauthólsvíkinni. Í mesta lagi að finna megi rusladall og útisturtu og kannske kamar. – Hér er því verk að vinna, kæru félagar, þið sem hyggið á “nýja útrás” eða boðun hins blauta fagnaðarerindis.

1. staðurinn sem ég prófaði var Hornstrandir hinar norsku sem eru á Nesoddatanga í Oslófirði.
http://www.zinetravel.no/image/1378
Þar er kletta- og sandströnd með gnægð appelsínugulra brennimarglytta sem skiptu sér jafnt um sjóinn eins og þær væru með ákveðið vaktsvæði hver og ein. Einhvern veginn tókst mér samt að semja við þær frið og synda líklega 1/2 km án þess að lenda í útistöðum við kvikindin.

Þegar ég kom í land beið nokkur hópur baðgesta sem veigruðu sér við að fara ofaní og spurðu mig í forundran hvort ég væri ekki hrædd við marglytturnar. Þá fyrst gerði ég mér grein f. alvarleika málsins, en ákvað að leika íslenska víkingakonu og sagði bara að þetta væri ekkert mál, því ef maður léti marglytturnar í friði gerðu þær manni heldur ekki neitt. Að þessu sögðu var ég svo hreykin af því hvernig ég tæklaði aðstæður að það lá við að ég tryði þessu sjálf!!!!!!!

2. staðurinn sem ég prófaði líka í ágúst var Katten við austurhluta Osló þar sem heitir Nordstrand.
http://www.oslofjorden.com/badesteder/oslo/katten.html
Það var ágætur staður með klettóttri strönd, grasflöt og sandhluta. Kamrar, útisturta og ruslafötur. Mætti einni appelsínugulri á sundleiðinni.

3. staðurinn var Ulvøya, en þangað fór ég í október. Kletta- og sandströnd beynt á móti Katten.
http://www.oslofjorden.com/badesteder/oslo/sydstranda.html
Ágætur staður með 2ja hæða stökkbretti, en ekki neinni búningsaðstöðu og veiðimenn með stangir við hlið sundfólksins. Þarna hittast nokkur hress norsk og dönsk pör (10-12 manns) kl. 9.30 á laugardagsmorgnum og vaða útí og uppúr aftur. Ég hef mætt 2x og slegið í gegn sem hetja f. að synda i 10 mínútur í 10 °C.

4.-5. staðurinn var svo i Moss eða brennivínsbænum eins og hann var eitt sinn kallaður (alveg satt! http://www.e-pages.dk/vis-itnorway/79/84)
Prófaði 2 strendur þar:
Larkollen
http://www.youtube.com/watch?v=YPbYbDS4bro
Ágæt sandströnd og tjaldstæði uppaf ströndinni.
Sjøbadet Moss http://www.visitmoss.no/product.php?id=375168
Ágæt sandströnd nýuppgerð í miðbæjarbryggjuhverfi Moss. hreirnn og fínn sjór, en heldur margir áhorfendur f. minn smekk og engin búningsaðstaða. Leið eins og fatafellu meðan ég skipti um föt eftir baðið.

6. staðurinn sem ég prófaði og langaðgengilegasti frá miðbæ Osló er Hulk ströndin á Bygdøy. Strætó nr. 30 ekur frá Nasjonalteatret og þangað ca. 4x á klst. virka daga en 2x um helgar.
http://www.friluftsetaten.oslo.kommune.no/badeinfo/huk/
Ætla að prófa 2 aðra staði þarna á Bygdøy Paradisbukten og Sjøbadet.

7. staðurinn var St. Olavs pir, Sjøbadet í Þrándheimi.
http://www.sjobadet.no/
Þar var ég laugardaginn 30. okt. sl. Eftir mikla leit og eftirgrennslan fann ég loks þetta frábæra sjóbað. Flott aðstaða en því miður búið að loka því sumarvertíðinni lauk 1. sept. Ég skellti mér nú samt ofaní og notaði útiaðstöðuna, borð og bekki og stiga út í sjó.

Verð að viðurkenna að þarna braut ég sjósundsreglu nr. 1 að synda ekki ein. Hugðist synda um 100 m leið að bryggjutanga einum. Engar baujur eða viðvaranir sjáanlegar. Sneri við áður en ég var komin alla leið og var rétt komin uppúr þegar stór bátur kom á fullri ferð og krossaði leiðina sem ég var nýbúin að synda. Þarna munaði nú litlu að ég synti mitt síðasta sjósund. En lítill vernarengill hefur líklega verið með í för.

8. Í dag fór ég svo í frábærum félagsskap 6 kvenna á besta aldri sem hafa stundað sjóböð í um 10 ár í strönd í litlum bæ, Son, við austanverðan Oslófjörð.
http://www.visitfollo.no/?c=5&parent=100000109&TLcc=100000123&id=199077&lang=no
Við byrjuðum á röskum göngutúr í ca. hálftíma og skelltum okkur svo útí. En Adam var ekki lengi í Paradís og Eva ekki heldur, því þær voru ekki fyrr farnar útí en þær ruku uppúr aftur. Ég hélt fyrst að þær hefðu séð hákarl, eða amk marglyttu. En nei, þetta var bara venjulega sjóbaðið þeirra. Þær tóku andköf af aðdáun yfir því að ég skildi synda í um 10 mín. í 5°C “heitum” sjónum og grandskoðuðu neofreon sokkana mína og hanskana og töldu að þeir hlytu að vera svarið við úthaldinu. Ætla allar að fá sér svoleiðis fyrir næstu ferð.

Svo var kveikt bál í fjörunni og drukkið kaffi og borðað súkkulaði og kökur. Semsagt bætt á sig þeim kaloríum sem töpuðust. Mikið hlegið og talað alveg eins og heima. Svo var gengið til baka sömu leið og ég kynnt fyrir bæjarbúum sem hetjan úr norðri. Þær sögðust hafa notið hylli í áraraðir fyrir hreysti í bænum, en nú væri ég semsagt búin að eyðileggja það allt saman. Samt vilja þær endilega hafa mig með næst – skil ekki alveg hvers vegna.

Með blautum sjósundkveðjum,
frá Eygló í Osló

Share

Er Fossvogurinn Klóakpottur?

October 2, 2010 by · 1 Comment
Filed under: Fréttir 

Sjósundmenn hafa í liðinni viku vart hitt þann kunningja sem ekki hefur spurt í gamni hvort viðkomandi syndi í klóaki. Fjölmiðlar greindu frá því að Kópavogsbær væri að veita frárennsli fram hjá skolpdælustöðinni beint út í sjóinn vegna tveggja daga viðgerðar á stöðinni.  Stöð þessi er ekki í sundleið sjósundfólks í Nauthólsvíkinni en straumar geta hæglega borið saurinn inn voginn ef mikið af frárennslinu fer þar út. Eftirgrennslan hjá þeim sem rannsakað hafa voginn og skoðað mengunarmælingar sem þar hafa farið fram, bendir til þess að magn sjávar sem um voginn fer sé það mikið að hann hreinsi sig alveg á sex tímum. Það er því engin hætta á því að við syndum í klóaki. Sjórinn er hreinn og heilsusamlegur. Hitt er svo annað mál að mikil uppbygging hefur farið fram í ferðaþjónustu í Nauthólsvík og staðurinn því viðkvæmur fyrir svona fréttum. Það að veita saur í sjóinn er með öllu ólíðandi. Kópavogsbær, sem stendur sig því miður mjög illa í ferðaþjónustu, verður að taka sig taki og koma skólpmálum sínum í lag. Í Kópavogi býr fjöldi iðkenda sjávaríþrótta og ekki er óalgengt að þeir komist í beina snertingu við sjóinn. Sjórinn þarf að vera hreinn, alltaf, alls staðar.

Árni Þór Árnason, varaformaður SJÓR, hefur rætt við umsjónarmenn skólpmála i Kópavogi. Það verður að segjast eins og er að samskiptin mega vera jákvæðari.  Eitt fékkst þó jákvætt út úr þeim samtölum. Það er áhugi á að bæta aðstöðuna við sjóinn til að Kópavogsbúar hafi svipaða aðstöðu til sjóbaða og Reykvíkingar. Það fyrsta sem þarf að gera er að koma skólpmálum í viðunandi horf.

Benedikt Hjartarson

Share

Ljóð um hafið

May 3, 2010 by · 2 Comments
Filed under: Fréttir 

Mörg ljóð hafa verið saminn um hafið og hér er eitt sem barst okkur frá sjósundfélaga.

Sjósundkonan (Hafmeyjan)

Þegar ég dey þá vil ég drukkna,
dofna í faðmi hafsins,
sökkva til botns og svífa upp aftur
skola svo á land með næsta flóði.
Sjór, komdu og sæktu mig
þegar stundaglasið er tómt.
(höf. esh)

Við hvetjum ykkur til að senda okkur ljóð, sögur eða annað skemmtilegt tengt sjósundi eða hafinu.

Share

Hamingjusamur sjósundsfélagi

February 9, 2010 by · 2 Comments
Filed under: Fréttir 

Ástæða þessa bréfs er að ég vil lýsa yfir ánægju minni yfir því að vera orðinn „sjósundsfíkill“. Svo er að þakka sundfélaga mínum og sambýling með skrifstofuaðstöðu, Jóni Sigurðarsyni, en hann skoraði á mig að mæta með sér í Nauthólsvíkina. Það runnu á mig tvær grímur, hafði ætíð stimplað þetta vetrarsjósundslið „kolklikkað“, eða samansafn af brjálæðingum. En ég lét sem betur fer tilleiðast. Og þvílík hamingja, mætandi í sjóinn frá því í nóvember, hitastig sjávar frá -1,7 og hefur farið upp í +3,2. En hver er hamingjan? Endurnæring á sál og líkama, hvorki fengið kvef né flensur og ekki síst ánægjan með að hitta þetta frábæra fólk sem mætir í Nauthólsvíkina. Veit ekkert hvaðan það kemur eða hvert það er, en það tekur manni fagnandi og maður er strax orðinn einn úr „fjölskyldunni“. Eina bannorðið er „Icesave“, látum þingmennina um þann sandkassaleik sem fer fram á alþingi. Tala nú ekki um starfsmennina, þeir eru frábærir og eiga stóran þátt í því hversu gott er þangað að koma.

Ungur nemur gamall temur.  Kolbeinn afi og Daníel Snær í sjónum í desember Sem einn af stofnendum Sjósunds – og sjóbaðsfélags Reykjavíkur vil ég þakka það öfluga starf sem nú er komið af stað, undir stjórn kröftugrar stjórnar. Megi gæfa og dugnaður fylgja félaginu um ókomna framtíð og hlakka til þess að fá að vera einn af ykkur.

Kolbeinn Pálsson

Á mynd: Ungur nemur gamall temur.  Kolbeinn afi og Daníel Snær í sjónum í desember

Share